Ferill 521. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 892 – 521. mál.



Frumvarp til laga



um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, með síðari breytingum (fyrning sakar) .

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



1. gr.


    Eftirfarandi breytingar verða á 81. gr. laganna, sbr. 5. gr. laga nr. 20/1981:
     a.      4. tölul. 1. mgr. orðast svo:
                  Á 15 árum, þegar þyngsta refsing við broti er meira en 10 ára tímabundið fangelsi.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Fyrningarfrestur vegna brota, sem fólgin eru í því að komast undan greiðslu á tollum, sköttum eða öðrum gjöldum til hins opinbera, er aldrei skemmri en 5 ár.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 82. gr. laganna, sbr. 6. gr. laga nr. 20/1981 og 43. gr. laga nr. 90/1996:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Fyrningarfrestur vegna brota samkvæmt ákvæðum 194.–202. gr. telst þó eigi fyrr en frá þeim degi er brotaþoli nær 14 ára aldri.
     b.      Í stað orðsins „refsilögsögu“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: forráðasvæðis.
     c.      4. mgr. orðast svo:
                  Fyrningarfrestur rofnar þegar rannsókn opinbers máls hefst fyrir rannsóknara gegn manni sem sakborningi. Í málum, sem lögreglan má samkvæmt lögum ljúka með sátt, rofnar fyrningarfrestur þegar lögreglan sakar mann um brot og kynnir honum sáttaboð. Þegar lög heimila stjórnvaldi endranær að kveða á um refsingu fyrir brot rofnar fresturinn þegar stjórnvaldið sakar mann um slíkt brot.
     d.      5. mgr. orðast svo:
                  Rannsókn skv. 4. mgr. rýfur ekki fyrningarfrest ef rannsóknari hættir rannsókninni, ákærandi ákveður að höfða ekki opinbert mál gegn sakborningi eða ákærandi afturkallar ákæru. Stöðvist rannsókn máls um óákveðinn tíma rýfur rannsóknin heldur ekki fyrn ingarfrest. Stöðvist rannsókn máls af því að sakborningur hefur komið sér undan rann sókn rýfur rannsóknin fyrningarfrest, en sá tími sem rannsóknin stóð yfir telst ekki til fyrningartímans. Ef máli er vísað frá héraðsdómi og ekki er hafist handa við að bæta úr ágöllum á málatilbúnaði innan 6 mánaða frá þeim degi, er málinu var vísað frá, rýfur undangengin rannsókn ekki fyrningarfrest.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 83. gr. a laganna, sbr. 8. gr. laga nr. 20/1981 og 8. gr. laga nr. 42/1985:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Fésekt, sem ákveðin er með dómi, úrskurði eða sátt, fyrnist þegar liðin eru 3 ár frá því að unnt var að fullnægja dómi, úrskurði eða sátt. Þegar fjárhæð fésektar er 60.000 krónur eða hærri er fyrningarfresturinn þó 5 ár.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                  Hafi greiðsla fésektar verið tryggð með fjárnámi eða öðrum sambærilegum hætti inn an fyrningarfresta skv. 1. mgr. lengjast þeir frestir um 2 ár.
     c.      Í stað orðanna „1. mgr.“ í 3. mgr. kemur: 1. og 2. mgr.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið á vegum refsiréttarnefndar. Var Hallgrímur Ásgeirsson, forstöðu maður hjá Siglingastofnun Íslands og stundakennari í refsirétti við lagadeild Háskóla Íslands, fenginn til að semja drög að frumvarpinu, en þau voru síðan rædd á fundum nefndarinnar.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum IX. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, um fyrningu sakar og brottfall viðurlaga.
    Tilefni frumvarpsins verður m.a. rakið til erindis umboðsmanns barna til dómsmálaráð herra frá september 1997 varðandi ákvæði hegningarlaganna um fyrningu kynferðisbrota gegn börnum. Einnig er almenn endurskoðun á ákvæðum IX. kafla hegningarlaganna orðin tíma bær, m.a. vegna nýrra réttarfarslaga.
    Frumvarpið felur í sér nokkur nýmæli og eru þessi þau helstu:
    Lagt er til að sakarfyrningarfrestur vegna kynferðisbrota gegn börnum skv. 194.–202. gr. laganna teljist aldrei fyrr en frá þeim degi er barnið nær 14 ára aldri.
    Lagt er til að undangengin rannsókn rjúfi ekki sakarfyrningarfrest ef opinberu máli er vísað frá héraðsdómi og ekki er hafist handa við að bæta úr ágöllum á málatilbúnaði ákæruvaldsins innan 6 mánaða frá þeim degi.
    Lagt er til að fyrningarfrestur fésektar lengist um 2 ár ef greiðsla sektar hefur verið tryggð með fjárnámi eða öðrum sambærilegum hætti innan frestsins.
    Auk framangreindra nýmæla er í frumvarpinu leitast við að skýra orðalag ákvæða IX. kafla hegningarlaganna og færa það til samræmis við lagabreytingar sem orðið hafa frá því að lög nr. 20/1981 tóku gildi, einkum breytingar á lögum um meðferð opinberra mála. Í frumvarpinu er efnisskipan ákvæða kaflans að öðru leyti látin haldast óbreytt.
    Frumvarpið hefur ekki að geyma ákvæði um beitingu nýrra fyrningarreglna vegna brota sem framin eru fyrir gildistöku laganna, verði frumvarpið að lögum. Í þeim efnum gilda ákvæði 2. gr. og 2. gr. a hegningarlaganna, sbr. 2. gr. laga nr. 31/1961, og meginreglur sem af þeim verða leiddar. Ef sök eða refsing er fyrnd samkvæmt núgildandi reglum við gildistöku laganna verður refsingu ekki beitt. Þá er gert ráð fyrir að brot, sem voru framin fyrir gildistöku laganna og voru ekki fyrnd við það tímamark, lúti núgildandi fyrningarreglum nema yngri reglur séu hagstæðari fyrir sakborning.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Um a-lið.
    Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 81. gr. hegningarlaganna, sbr. 5. gr. laga nr. 20/1981, fyrnist sök á 15 árum, þegar þyngsta refsing við broti er 16 ára fangelsi eða lengra tímabundið fang elsi. Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. fyrnist sök á 10 árum, þegar ekki liggur þyngri refsing við broti en 10 ára fangelsi. Hætt er við að þessi ákvæði verði túlkuð þannig að ekki sé kveðið á um fyrningu sakar þegar þyngri refsing en 10 ára fangelsi en vægari refsing en 16 ára fangelsi liggur við broti. Ekki var þó gert ráð fyrir slíku við setningu laga nr. 20/1981.
    Hér er því lagt til að kveðið verði skýrar á um þetta atriði. Lagt er til að orðalagi 4. tölul. 1. mgr. 81. gr. verði breytt þannig að kveðið sé á um að sök fyrnist á 15 árum, þegar þyngsta refsing við broti er meira en 10 ára tímabundið fangelsi.
     Um b-lið.
    Sérstaka fyrningarreglan í 2. mgr. 81. gr. hegningarlaganna, sbr. 5. gr. laga nr. 20/1981, um bókhaldsbrot skv. 262. gr. laganna, var sett vegna þess að talin var þörf á alllöngum fyrn ingarfresti við slík brot, þar sem upp um þau kemst oft löngu eftir að þau eru framin og erfitt getur verið að ljóstra upp um þau. Viðurlög við bókhaldsbrotum samkvæmt upphaflegu ákvæði 262. gr. voru sektir eða varðhald. Með 1. gr. laga nr. 39/1995 var gerð breyting á 262. gr. hegningarlaganna og kveðið á um að hámarksrefsing við meiri háttar brotum gegn til greindum skattalögum og bókhaldslögum sé fangelsi allt að 6 árum. Gildandi sérregla um fyrningu brota skv. 262. gr. er því óþörf og er lagt til að hún verði felld niður.
    Lögfesting sérstakrar fyrningarreglu um brot sem fólgin eru því í að skjóta sér með ólög mætum hætti undan greiðslu á tollum, sköttum eða öðrum gjöldum til hins opinbera byggði á sömu rökum og sérreglan um fyrningu bókhaldsbrota skv. 262. gr. Frá setningu laga nr. 20/1981 hafa verið gerðar viðamiklar breytingar á helstu skattalögum og tollalögum, m.a. með tilliti til hámarksrefsinga og sakarfyrningar. Ekki er því sama þörf fyrir sérreglu um fyrningu slíkra brota og áður. Sérreglan getur þó enn átt við og er því lagt til að henni verði haldið en orðalagi breytt lítillega. Lagt er til að fyrningarfrestur vegna brota, sem fólgin eru í því að komast undan greiðslu á tollum, sköttum eða öðrum gjöldum til hins opinbera, sé aldrei styttri en 5 ár. Önnur lagaákvæði um þessar brotategundir ganga framar almenna ákvæðinu. Ef þar er kveðið á um hámarksrefsingu, sem leiðir til lengri fyrningarfrests en 5 ára, eða ef þar er kveðið sérstaklega á um lengd fyrningarfrests, ganga þau ákvæði því framar.

Um 2. gr.

    Um a-lið.
    Í ákvæðum 194.–202. gr. hegningarlaganna um kynferðisbrot er kveðið á um að þyngsta refsing sem liggi við þeim brotum sé 2 til 16 ára fangelsi. Skv. 81. gr. laganna, sbr. 5. gr. laga nr. 20/1981, fyrnist sök vegna þessara brota á 5 til 15 árum. Skv.1. mgr. 82. gr., sbr. 6. gr. laga nr. 20/1981, telst sakarfyrningarfresturinn frá þeim degi er refsiverðum verknaði eða refsiverðu athafnaleysi lauk.
    Þegar kynferðisbrot beinast gegn börnum er hætt við að fyrningarfrestur sé liðinn þegar börnin hafa náð þeim þroska sem þarf til þess að gera sér grein fyrir því að um refsivert brot hafi verið að ræða. Þá er og hætt við að börn hafi takmarkaða möguleika á að kæra slík afbrot.
    Með frumvarpinu er lagt til að sett verði sérregla um upphaf sakarfyrningarfrests vegna brota skv. 194.–202. gr. hegningarlaganna. Gert er ráð fyrir að 1. mgr. 82. gr. laganna verði breytt þannig að bætt verði við nýjum málslið þar sem kveðið er á um að fyrningarfrestur vegna brota samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum teljist ekki fyrr en frá þeim degi er brotaþoli nær 14 ára aldri. Samkvæmt tillögunni telst fyrningarfrestur vegna þessara brota því frá þeim degi er refsiverðum verknaði lauk, nema brotaþoli hafi þá ekki náð fyrrgreindum aldri, og telst fresturinn þá frá þeim degi er brotaþoli nær þeim aldri. Upphaf frestsins er miðað við síðara tímamarkið. Standi verknaður fram yfir 14 ára aldursmarkið eða hefjist eftir að brotaþoli hefur náð 14 ára aldri telst fresturinn frá þeim degi er verknaðinum lauk.
    Breytingunni er ætlað að aðlaga fyrningarreglur hegningarlaganna að þeim aðstæðum sem upp geta komið þegar kynferðisbrot beinast gegn börnum. Varðandi aldursmarkið 14 ár ber að hafa í huga að samkvæmt frumvarpinu tekur fyrningarfresturinn aldrei að líða fyrr en við það aldursmark, en eins og áður segir getur fresturinn verið allt frá 5 til 15 ára. Ef 5 ára fyrn ingarfrestur er ekki rofinn fyrnist sök þegar brotaþoli nær 19 ára aldri. Ef fyrningarfrestur er lengri, þ.e. 10 eða 15 ár, fyrnist sök þegar brotaþoli nær 24 eða 29 ára aldri, nema fresturinn sé rofinn innan þess tíma. Almennt má ætla að brotaþoli hafi innan þess frests náð nægilegum þroska til þess að gera sér grein fyrir afbrotinu og haft möguleika á að kæra það. Þá ber að taka tillit til lagaraka fyrir fyrningu sakar sem viðurkennd eru í refsirétti. Þau rök varða til dæmis öflun sönnunargagna og aðrar forsendur rannsóknar, hraða rannsóknar og breytta hagi sakbornings.
    Í frumvarpinu er ekki að finna ákvæði um beitingu þessara reglu um brot sem framin eru fyrir gildistöku laganna. Um það gilda ákvæði 2. gr. og 2. gr. a hegningarlaganna, sbr. 2. gr. laga nr. 31/1961, og þær meginreglur sem af þeim má leiða. Ef sök er fyrnd við gildistöku lag anna samkvæmt núgildandi reglu verður refsingu ekki beitt.
     Um b-lið.
    Í refsirétti hefur hugtakið refsilögsaga verið skilgreint sem vald til þess að setja refsilög og vald til þess að framfylgja þeim lögum með rannsókn, dómi og refsifullnustu. Merking hug taksins refsilögsaga í 3. mgr. 82. gr. hegningarlaganna, sbr. 6. gr. laga nr. 20/1981, samræmist ekki þessari skilgreiningu. Ákvæðið hefur verið túlkað þannig að átt sé við íslenskt for ráðasvæði. Því er lagt til að í stað orðsins refsilögsaga komi orðið forráðasvæði. Hér er ekki um að ræða breytingu á efni ákvæðisins.
    Með forráðasvæði er átt við íslenskt land, íslenska landhelgi og íslenska lofthelgi, eins og þessi hugtök eru afmörkuð í lögum um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, nr. 41/1979. Refsiverð brot á fiskveiðilöggjöf eða annarri löggjöf um meðferð auðlinda, sem framin eru innan efnahagslögsögunnar, teljast einnig vera framin innan íslensks forráðasvæðis að þessu leyti. Hugtakið forráðasvæði er því í samræmi við túlkun á 1. málsl. 1. tölul. 4. gr. hegningarlaganna.
     Um c-lið.
    Með lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, voru eiginlegar dómsrannsóknir lagð ar niður. Því er lagt til að fellt verði niður gildandi ákvæði 4. mgr. 82. gr. hegningarlaganna, sbr. 6. gr. laga nr. 20/1981, um að réttarrannsókn rjúfi sakarfyrningarfrest.
    Samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála er rannsókn í höndum lögreglu nema öðru vísi sé mælt fyrir í lögum og er rannsóknari sá starfsmaður lögreglu eða ákæruvalds sem rann sókn stýrir eða sinnir hverju sinni, sbr. 66. gr. Lagt er til að hugtakið rannsóknari verði notað til samræmis við hugtakanotkun í þeim lögum. Í lögreglulögum er tilgreint hverjir séu hand hafar lögregluvalds, sbr. 9. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996. Þá er lagt til að hugtakið sakborn ingur verði notað í stað hugtaksins sökunautur og er það til samræmis við hugtakanotkun í lögum um meðferð opinberra mála.
    Lagt er til að fyrningarfrestur rofni þegar rannsókn opinbers máls hefst fyrir rannsóknara gegn manni sem sakborningi. Átt er við að rof fyrningarfrests miðist við það þegar tiltekinn maður er við rannsókn opinbers máls sannanlega hafður fyrir sökum vegna refsiverðs brots þannig að rannsókn málsins beinist að þeim manni sem sakborningi í skilningi laga um með ferð opinberra mála. Nokkur vafi getur leikið á því hvenær maður er orðinn sakborningur sam kvæmt þeim lögum. Stundum er það ljóst, t.d. þegar maður er handtekinn vegna gruns um refsivert brot, settur í gæsluvarðhald eða þegar framkvæmd er leit eða önnur þvingunarráð stöfun í þágu rannsóknar máls. Sama á við þegar maður er yfirheyrður við rannsókn máls vegna gruns á hendur honum um refsivert brot, en þá á hann rétt á því að fá vitneskju um að hann hafi réttarstöðu sem sakborningur, sbr. 32. gr. laga um meðferð opinberra mála. Í öllum þessum tilvikum er ljóst að maður er orðinn sakborningur og að fyrningarfrestur er rofinn. Vera má að rannsókn máls hafi beinst að tilteknum manni sem sakborningi þannig að fyrning arfrestur sé rofinn, þótt framangreind tilvik séu ekki fyrir hendi, t.d. vegna þess að ekki hefur náðst í sakborning. Hvílir sönnunarbyrðin um þau atriði á ákæruvaldinu. Í þeim efnum nægja t.d. fyrirmæli ríkissaksóknara um rannsókn á hendur ákveðnum manni eða handtökuskipun dómara. Samkvæmt frumvarpinu er það því ekki skilyrði fyrir rofi á fyrningarfresti að manni hafi verið gerð grein fyrir réttarstöðu sinni sem sakborningi eða að honum sé kunnugt um hana.
    Í 4. mgr. 82. gr. hegningarlaganna, sbr. 6. gr. laga nr. 20/1981 og 43. gr. laga nr. 90/1996, er áskilið að lögfræðingur (lögreglustjóri eða löglærður fulltrúi hans) fjalli um mál. Var þessi áskilnaður gerður í þeim tilgangi að stuðla að réttaröryggi sakborninga. Telja verður að unnt sé að tryggja sama réttaröryggi að þessu leyti, þótt lögreglumenn annist rannsókn mála, enda fái þeir fullnægjandi fræðslu og leiðbeiningar þar að lútandi. Því er lagt til að felldur verði niður áskilnaður um að lögfræðingur fjalli um mál svo lögreglurannsókn rjúfi fyrningarfrest.
    Með sátt er átt við lögreglustjórasáttir, sektarboð og sektargerðir lögreglu samkvæmt lög um um meðferð opinberra mála og reglugerðum þar að lútandi sem settar eru með stoð í þeim lögum. Lögregla telst saka mann um brot og kynna honum sáttboð þegar fylgt er þeirri máls meðferð sem mælt er fyrir um í ákvæðum laga og reglugerða þar að lútandi. Allt að einu ber ákæruvald sönnunarbyrði þess að fyrningarfrestur hafi verið rofin með þessum aðgerðum.
    Þær breytingar aðrar sem lagt er til að gerðar verði á ákvæðinu miða að því að einfalda og skýra orðalag.
     Um d-lið.
    Lagt er til að orðalagi 5. mgr. 82. gr. hegningarlaganna, sbr. 6. gr. laga nr. 20/1981, verði breytt til samræmis við lög um meðferð opinberra mála. Lagt er til að rannsókn rjúfi ekki fyrn ingarfrest ef rannsóknari hættir henni. Átt er við að rannsóknari hætti rannsókn málsins endanlega, en skv. 76. gr. laga um meðferð opinberra mála getur lögregla hætt rannsókn opin bers máls ef ekki þykir vera grundvöllur til að halda henni áfram eða ef í ljós kemur að kæra var ekki á rökum reist. Einnig er lagt til að undangengin rannsókn rjúfi ekki fyrningarfrest ef ákærandi ákveður að höfða ekki opinbert mál gegn sakborningi, en skv. 112. gr. laga um meðferð opinberra mála tekur handhafi ákæruvalds ákvörðun um hvort sækja skuli mann til sakar eða ekki eftir að rannsókn er lokið hjá lögreglu. Þá er lagt til að undangengin rannsókn rjúfi ekki fyrningarfrest ef ákærandi afturkallar ákæru, en ákærandi getur afturkallað ákæru, sem hann hefur gefið út, fram til þess að dómur gengur, sbr. 2. mgr. 118. gr. laga um meðferð opinberra mála.
    Tillaga um breytt orðalag varðandi ákvæði um stöðvun rannsóknar felur ekki í sér efnis breytingu frá gildandi lögum. Varðandi túlkun á því hvenær rannsókn hafi stöðvast um óákveðinn tíma má vísa til dómaframkvæmdar þar að lútandi.
    Lagt er til að gildandi ákvæði lokamálsliðar 5. mgr. 82. gr. hegningarlaganna, sbr. 6. gr. laga nr. 20/1981, verði breytt, enda hafa ýmis vafaatriði vaknað við túlkun þess. Í lögum um meðferð opinberra mála eru ákæranda ekki settir sérstakir frestir til þess að laga annmarka á málatilbúnaði sem valda frávísun frá dómi og höfða mál að nýju á hendur sakborningi. Ekki er lagt til að sett verði ákvæði um slíka fresti í hegningarlögin, enda ætti slíkt ákvæði fremur við í lögum um meðferð opinberra mála. Hins vegar eiga hér að nokkru leyti við sömu sjónar mið um sakarfyrningu og eiga við um stöðvun rannsóknar. Ef máli er vísað frá og ekki höfðað að nýju er eðlilegt að það leiði til sömu niðurstöðu varðandi sakarfyrningu og þegar rannsókn máls stöðvast. Þá getur sá tími sem líður frá því að máli er vísað frá til þess að hafist er handa við að bæta úr ágöllum talist óeðlilega langur með tilliti til sakarfyrningar. Því er lagt til að undangengin rannsókn rjúfi ekki fyrningarfrest ef máli er vísað frá dómi og ekki er hafist handa við að bæta úr ágöllum innan 6 mánaða frá þeim degi er málinu var vísað frá. Nægilegt er að sýnt sé fram á að hafist hafi verið handa við að bæta úr ágöllum á málatilbúnaði innan 6 mánaða frestsins. Ekki er áskilið að gefin hafi verið út ný ákæra innan frestsins.

Um 3. gr.

    Um a-lið.
    Lagt er til að 1. mgr. 83. gr. a hegningarlaganna, sbr. 8. gr. laga nr. 20/1981 og 8. gr. laga nr. 42/1985, verði breytt þannig að fjárhæð fésekta, sem fyrnast á 5 árum, verði hækkuð í 60.000 krónur til samræmis við verðlagsþróun. Verði frumvarpið að lögum styttist um 2 ár fyrningarfrestur ógreiddra fésekta, sem ákveðnar hafa verið fyrir gildistöku laganna og eru 20.000 krónur eða hærri en lægri en 60.000 krónur. Með fésekt er hér átt við refsingu sem ákveðin er með dómi, sektargerð dómara eða sektargerð stjórnvaldshafa, þar á meðal sekt argerð lögreglustjóra.
     Um b-lið.
    Lagt er til að 2. mgr. 83. gr. a hegningarlaganna, sbr. 8. gr. laga nr. 20/1981, verði breytt þannig að hafi fjárnám verið gert eða önnur sambærileg trygging fengin innan fyrningarfresta skv. 1. mgr. til tryggingar greiðslu fésektar skuli 2 ár bætast við fyrningarfrestina. Að þeim tíma liðnum falla niður allar eftirstöðvar fésektarinnar og tryggingar fyrir henni. Fésekt sem er lægri en 60.000 krónur fyrnist þá á 5 árum en fésekt sem er 60.000 krónur eða hærri fyrnist á 7 árum. Hér því um að ræða 2 ára fyrningarfrest til viðbótar almennum fyrningarfrestum skv. 1. mgr.
     Um c-lið.
    Lagt er til að 3. mgr. 83. gr. a almennra hegningarlaga, sbr. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 20/1981, verði breytt til samræmis við þá breytingu sem lögð er til á 2. mgr. 83. gr. a.

Um 4. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á almennum
hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum (fyrning sakar).

    Í frumvarpinu eru gerðar breytingar á ákvæðum um fyrningu sakar og brottfall viðurlaga. Ekki verður séð að frumvarpið hafi í för með sér kostnaðarauka fyrir ríkissjóð verði það óbreytt að lögum.